Tónleikar á Gljúfrasteini

Á sunnudaginn kemur, 22.júní, held ég tónleika í Gljúfrasteini, húsi sem oftar en ekki er kennt við Halldór Laxness. Í stofunni er forláta flygill sem ég fæ til brúks og verður spennandi að prófa gripinn. Til að ramma tónleikana inn ákvað ég að einblína á lög sem ég hef samið við íslensk ljóð frá ýmsum tímum. Meðal höfunda eru Halldór Laxness, Stefán Máni, Jónas Guðlaugsson, Ólafur Haukur Símonarson og Hallgrímur Helgason. Tónleikarnir hefjast kl.16.00 og miðaverð er 1500 kr.-

Share : facebooktwittergoogle plus



Nýtt efni 2014

Það er útlit fyrir skemmtilegt ár í músíkinni. Hljómsveitin Nýdönsk ætlar að spila ögn meira en árið 2013 og rætt hefur verið um að taka upp nýtt efni. Það væri gaman ef það gengi upp. Sjálfur er ég staðráðinn í að senda eitthvað frá mér á árinu – tel það löngu tímabært. Síðasta sólóplatan mín, Hagamelur, kom út árið 2007 góðir hálsar. Sönglögin hafa safnast upp auk þess sem ég er að fikta í elektróník líka. Sjáum hvað setur!

Share : facebooktwittergoogle plus

Mest spilaða lag ársins 2013 á Rás 2

Þannig týnist tíminn er mest spilaða lag ársins 2013 á Rás 2. Ég tjáði höfundi lagsins, Bjartmari Guðlaugssyni eftir að hann söng inn prufuupptöku lagsins inn á harða diskinn á Hagamel, að þetta lag væri ekkert annað en sálmur og ég kysi hafa útsetninguna látlausa í meira lagi. Ragnar Bjarnason söng lagið síðan inn án mikilla tilþrifa; meira sem sögumaður og tók vel í að hafa þetta svona í dýpri kantinum. Það var passað upp á að víbratóið væri ekki mikið og nóturnar ekki of langar. Eftir að hann hafði sungið lagið allt yfir datt okkur í hug að prófa þetta sem dúett og Lay Low söng inn sínar línur áreynslulítið að vanda. Það er gaman þegar vel tekst til. Þess má geta að Ragnar Bjarnason verður 80 ára á næsta ári. Þá ættum við að gefa honum blóm eða eitthvað viðlíka. Ekki satt?

Share : facebooktwittergoogle plus


1 2