jon-ferill

 

 

Jón Ólafsson er fæddur 25.febrúar árið 1963. Hann varð stúdent frá Verslunarskóla Íslands árið 1982. Píanóleik nam hann m.a hjá þeim Þorsteini Haukssyni, Ásgeiri Beinteinssyni, Selmu Guðmundsdóttur, Kristni Gestssyni, Carli Möller, Bert van der Brink og Halldóri Haraldsson. Frá árinu 1990 hefur Jón verið meðlimur í hljómsveitinni Nýdönsk. Auk þess er hann einn stofnenda Bítlavinafélagsins, Sálarinnar hans Jóns míns og Possibillies.  Jón hefur verið starfandi tónlistarmaður frá árinu 1986 auk þess að starfa við fjölmiðla. Hann var einn af frumherjum Rásar 2 þegar hún fór í loftið 1.des. 1983 og stjórnaði nokkrum vinsælum útvarpsþáttum. Má þar nefna Létta spretti og Létta ketti.  Jón var eitt sinn stjórnandi sjónvarpsþáttarins Poppkorns í RUVog lék á píanó í þættinum Á elleftu stundu. Þættir hans; Af fingrum fram, voru á dagskrá RUV í 3 vetur og hlaut Jón Edduverðlaunin eftir fyrsta veturinn. Jón stjórnaði þættinum JÓN ÓLAFS veturinn 2006-2007 og aftur hlaut hann Edduna. Hann hafði og umsjón með þættinum ALBÚMIÐ á Rás 1 árin 2012-2013 ásamt Kristjáni Frey Halldórssyni og er nú með þáttinn B-hliðin á Rás 1.

Jón hefur samið ýmis konar tónlist frá unga aldri og mörg popplaganna hafa náð umtalsverðum vinsældum. Þar má nefna lögin Alelda, Flugvélar, Horfðu til himins, Boy who giggled so sweet, Þrisvar í viku, Móðurást, Líf, Í brekkunni,Passíusálmur no.5 og Sunnudagsmorgunn. Hann hefur samið tónlist fyrir sjónvarp og bíó. Þar má nefna heimildamyndina Volcano of Ice (RUV), stuttmyndina Krossgötur (Sigurður Kaiser og Björn Helgason) og sjónvarpsmyndina Úr öskunni í eldinn (Óskar Jónasson) .Einnig hefur Jón samið talsvert af auglýsingatónlist og gert stef fyrir útvarp og sjónvarp.  Hann samdi tónlistina í kvikmyndinni Brúðguminn ásamt Sigurði Bjólu.  Jón samdi einnig tónlistina fyrir kvikmyndina Gauragang, einn og óstuddur í því tilfelli.

Sem hljóðfæraleikari og upptökustjóri hefur Jón komið við sögu yfir 130 hljómplatna Listamenn sem hafa notið samvista við Jón eru meðal annars: Emilíana Torrini, Megas, Eyjólfur Kristjánsson, Geirfuglarnir, Magnús og Jóhann, Bubbi Morthens, SSSól, Spoon, Einar Ágúst og Thelma, Sálin hans Jóns míns, Nýdönsk, Ceres 4, Vinabandið, Fjallkonan, Possibillies, Bítlavinafélagið, Valgeir Guðjónsson, Smack, 3 systur, Ragnheiður Gröndal, Helgi Pétursson, Ólafur Haukur Símonarson ,Hildur Vala, Ragnar Bjarnason, Jón Jónsson o.fl.

Jón hefur verið afar iðinn við tónlistarstjórn í íslenskum leikhúsum síðustu misserin. Hann var tónlistarstjóri í Hárinu og Bugsy Malone hjá Loftkastalanum. Rocky Horror og Poppleikinn Óla setti hann upp með Leikfélagi M.H. Blóðbræður, Grease, Hið ljúfa líf,Litlu Hryllingsbúðina, Sól og Mána , Chicago, Fólkið í blokinni og Gauragang setti hann upp í Borgarleikhúsinu. Hjá Þjóðleikhúsinu má nefna Taktu Lagið Lóa, Gauragang, Meiri Gauragang og RENT. Hann hefur margsinnis leiðbeint nemendum Verzlunarskóla Íslands við uppsetningar á Nemendamótum. Þeir hafa sett upp metnaðarfullar sýningar eins og til dæmis Rocky Horror Picture Show, Fame, Hárið, Saturday Night Fever, Dirty Dancing, Thriller ,Wake me up before you gogo Slappaðu a, Made in USA og Sólsting undir handleiðslu Jóns og hinna ýmsu leikstjóra. Jón var tónlistarstjóri í IDOL öll þrjú árin sem sú keppni fór fram.

Jón hefur sent frá sér 2 sólóplötur. Hinn fyrri kom út 2004 og heitir Jón Ólafsson en hinn síðari árið 2007 og kallast Hagamelur.